Veiði á Skagaheiði & gisting á Skagaströnd
Frábært hús við tjaldsvæðið
Hafið samband við Jón
Jón Garðar Sveinsson getur gefið ykkur tilboð í veiði & gistingu. Jón Garðar þekkir Skagaheiði eins og puttann á sér og kemur aldrei fisklaus úr veiðitúr.
Einnig leigir hann út húsin Stuðlaberg og Hólaberg en þau eru innflutt hús frá Victory Leisure Homes í Englandi.
Veiði á Skagaheiði
Skagaheiði er stórkostlegt land sem fáir þekkja, þar er töfrandi fegurð og heillandi möguleikar til útivistar. Landslagið er tiltölulega lágt, yfirleitt undir tvö hundruð metrum. Stórar klettaborgir breiða víða úr sér og í lægðum á milli þeirra eru veiðivötnin sem vart eiga sinn líka hér á landi.
Silungs veiði á Skagaheiði
Skagaheiði með sínum mörgu vötnum bíður uppá stórkostlegar veiði upplifanir árið um kring.
Jón Garðar er einn af þeim sem stundað hefur heiðina á öllum árstímum og gjörþekkir aðstæður hvort heldur það er vetur, sumar, vor eða haust.
Skotveiði á Skagaheiði
Skotveiði á Skagaheiði hvort sem er rjúpa eða gæs er líka möguleiki og á haustin er hægt að fara í kombí veiði á silung og gæs ef menn eru spenntir fyrir því.
Ýtið á myndirnar
Miklu meira en veiðivötnin
Skaginn er einn af útvörðum Íslands til norðurs og ber mörg einkenni þess. Gróðurfar á svæðinu ber víða vott hinna norðlægu slóða þar sem skiptast á gróðurlitlir malar ásar og gróðursælir dalir, hvilftir og lautir. Fjölbreytileiki gróðurtegunda er mikill, allt frá elftingum og skófum upp í fjalldrapa og hrís. Við ströndina eru brimsorfnir klettar og björg. Má þar nefna Króksbjarg, Kálfshamarsvík og Ketubjörg. Inni í landi eru veiðivötnin, mosagrónar klettaborgir, stórkostlegt útsýni til þriggja höfuðátta en í norður er eilífðarútsærinn.
Fuglalíf á hinum víðáttumiklu heiðalöndum á Skaga, svo og á vötnum og tjörnum er mjög fjölskrúðugt og þar má finna fjölda fuglategunda. Þar verpa margar tegundir mó fugla, vaðfugla og spörfugla og auðvitað vaka ránfuglarnir síðan yfir og eiga sér sína laupa, óðul og veiðisvæði. Á góðviðrisdögum ómar Skaginn og Skagaheiðin af sam söng þessara íbúa náttúrunnar.
Sagan og fortíðin eiga sér líka sína fulltrúa inni á heiðinni. Þar má finna rústir smá býla og selja. Slóðirnar að þeim eru orðnar grónar og einungis farnar af búfénaði og stöku ferðalangi en voru áður hluti þjóðleiða milli héraða. Sögurnar sem landið geymir eru fjölmargar af ferðum þeirra sem götuna tróðu, sigrum og ósigrum. Sumar hafa geymst og verið ritaðar, aðrar eru horfnar eins og þeir sem kotin byggðu.
Bæði þjóðsögur og örnefni eiga sér samastað á Skaga. Sumar tengjast veiðivötnum og hafa kannski verið sagðar til skemmtunar og til að skapa spennu í tilveruna. Í Kambadal upp af Hrafndal er til dæmis lítil tjörn sem heitir Skrímslatjörn. Sagan hermir að þar búi ógurlegt skrímsli sem eigi sér undirgöng og geti líka komið upp í tjörn lengst úti á Skaga. Munnmæli segja frá því að nykur hafi verið í Torf dalsvatni og verið fólki varasamur. Sagnir eru til um loðsilung sem varð fólki að aldurtila á Kaldrana. Ekki má nefna þjóðsögur á Skaga án þess að minnast á tröll konuna Kólku sem réri á steinnökkva sínum frá Höfnum og svalg allt vatn úr Kólku tjörn, með öllum kvikindum sem í því voru, eftir að hafa róið að landi í óveðri með báta tvo í togi.
Veðurfar á Skaga ber öll einkenni hinna norðlægu slóða. Snögg veðrabrigði geta orðið og góðviðrisdagur breyst með stuttum fyrirvara í storm með regni eða snjókomu eftir árstíðum. Köld þokan læðist stöku sinnum inn með norðanáttinni en fer oft ekki fjarri sjó. Allt þetta verður sá sem fer um Skagann og heiðina að skoða og virða því náttúran getur verið óvægin ef óvarlega er farið.
Texti frá bækling "Veiði á Skagaheiði"
Útgefandi: Róbert Freyr Gunnarsson, Skagaströnd 2012
Ritstjórn: Sigurður Sigurðarson
Ráðgjöf og aðstoð: Ingibergur Guðmundsson, Magnús B. Jónsson, Bjarni Jónsson